Gjaldskrá


I. Almennt
1. gr.

Lögmenn Kópavogi ehf. áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín, með hliðsjón af þeim hagsmunum, sem um er fjallað og því verki, sem í té er látið. Nær þetta jafnframt til hlutdeildar í fjárhæð málsins og með hliðsjón af niðurstöðu málsins sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Gjaldskrá þessi hefur að geyma almennar viðmiðunarreglur um gjaldtöku fyrir veitta lögfræði- og innheimtuþjónustu Lögmanna Kópavogi enda sé ekki um annað samið. Auk þóknunar skal ávallt greiddur útlagður kostnaður vegna einstakra mála. Þóknun skal almennt greidd fyrirfram með hliðsjón af væntanlegu umfangi verks.

Eftirfarandi gjaldskrá hefur að geyma upplýsingar um gjaldtöku Lögmanna Kópavogi. Gjaldskráin á að leiða til sanngjarnrar gjaldtöku fyrir vinnu Lögmanna Kópavogi að dæmigerðu máli á viðkomandi sviði.

2. gr.

Við ákvörðun þóknunar skal almennt miða við unninn tíma í þágu verks, enda sé ekki annað tekið fram í gjaldskrá þessari. Lögmönnum Kópavogi ehf. er heimilt að áskilja sér hlut af fjárhæð máls og hærri þóknun með hliðsjón af þeim hagsmunum, sem um er fjallað og því verki sem látið er í té, svo sem ef verkefni reynast óvenju tímafrek.

II. Tímagjald
3. gr.

Tímagjald er frá kr. 26.900,- til kr. 45.500,- miðað við einnar klukkustundar vinnu samkvæmt tímaskráningu þess, sem verkið vinnur. Fyrir hvert símtal og/eða tölvupóst skulu að jafnaði skráðar 15 mínútur, nema það taki lengri tíma. Í tímagjaldinu er innifalinn ýmislegur nauðsynlegur skrifstofukostnaður og gagnageymsla.

Við ákvörðun tímagjalds í hverju tilviki skal það ákvarðað hærra en grunngjald meðal annars með tilliti til umfangs verks, hvort það kallar á sérþekkingu lögmannsins, hversu miklir hagsmunir eru, hversu aðkallandi verkefnið er, á hvaða tíma verkefnið er unnið t.d. kvöld-, nætur- eða helgarvinna, hvort það er unnið á erlendum tungumálum o.s.frv.

4. gr.

Þegar verk er unnið á grundvelli tímaskráningar skal lögmaður færa skrá um þá tíma sem til verksins fara og við hvað er unnið. Viðskiptamaður á rétt á afriti af tímaskýrslum til skýringar á reikningi og skulu tímaskýrslur að jafnaði fylgja reikningum. Viðmiðunargjald lögmanna fer eftir starfsreynslu þeirra og þekkingu. Tímagjald eiganda skal að jafnaði ekki vera lægra en kr. 26.900,-.

III. Málflutningur
5. gr.

Vegna málflutnings skal þóknun almennt ákvörðuð með tilliti til þeirra hagsmuna, sem um er fjallað. Málflutningsþóknun samkvæmt þessari grein getur þó aldrei orðið lægri en sem nemur tímagjaldi samkvæmt tímaskráningu, sbr. 3. og 4. gr. Dæmdur málskostnaður í máli, hefur ekki áhrif á málflutningsþóknun lögmanns.

i) Í þeim málum, sem eru munnlega flutt eða gagnaöflun fer fram í eftir þingfestingu, skal málflutningsþóknun vera kr. 75.000,- að viðbættum 15% af stefnufjárhæð og vöxtum, allt að kr. 4.000.000,-, 7% af næstu kr. 8.000.000,- og 4% af því, sem umfram er.

ii) Í málum sem rekin eru skv. XVII. kafla EML og almennum skuldamálum, sem eigi fer fram gagnaöflun í eftir þingfestingu eða dómtekin eru á þingfestingardegi, skal grunngjald málflutningsþóknunar vera kr. 22.000,- að viðbættum 10% af stefnufjárhæð og vöxtum, allt að kr. 4.000.000,-, 5% af næstu kr. 8.000.000,- og 3% af því sem umfram er.

iii) Í málum er verða sætt eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð og í málum sem í verður útivist af hálfu gagnaðila síðar en við þingfestingu skal grunngjald vera kr. 100.000,- að viðbættum 12,5% af stefnufjárhæð og vöxtum, allt að kr. 3.500.000,- 6% af næstu kr. 7.000.000,- og 3% af því sem umfram er.

iv) Í málum sem örðugt er að meta hagsmuni til fjár og í málum, þar sem um lágar fjárhæðir er að ræða, en úrslit máls hafa þýðingu fyrir ótiltekinn fjölda aðila skal þóknun að jafnaði miðast við tímagjald eftir umfangi máls nema sérstaklega standi á.

v) Rétt er að krefja sérstaklega um þóknun fyrir flutning um formhlið máls.

vi) Rétt er að krefja sérstaklega um þóknun fyrir dómkvaðningu matsmanna og meðferð matsmáls. Ennfremur vegna höfðunar og reksturs vitnamáls. Beita skal ákvæðum greinar þessarar um málflutning fyrir dómi eða stjórnvaldi eftir því sem við á.

IV. Innheimtur
6. gr.

Innheimtuþóknun samkvæmt neðangreindu skal reikna af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta. Skuldari kröfu stendur skil á innheimtuþóknun en skuldareigandi að því leyti sem innheimtan reynist árangurslaus. Innborgun á kröfu gengur fyrst til greiðslu útlagðs kostnaðar og innheimtuþóknunar. Uppgjör til skuldareiganda skal að jafnaði vera 15. dagur hvers mánaðar vegna þeirra greiðslna sem inntar eru af hendi í mánuðinum á undan.

i) Almennar innheimtur: Grunngjald innheimtuþóknunar er kr. 6.500,- en við bætast 25% af fyrstu kr. 90.000,-, 10% af næstu kr. 650.000,-, 5% af næstu kr. 6.500.000,-, 3% af næstu kr. 9.500.000,- og 2% af því, sem fram yfir er.

ii) Sé innheimtan fyrir aðila búsettan erlendis skal kröfuhafi greiða 10% af innheimtri fjárhæð auk þóknunar samkvæmt 1. tölulið hér að ofan.

Þóknun samkvæmt þessari grein getur ekki orðið lægri en sem nemur tímagjaldi samkvæmt tímaskráningu, sbr. 3. og 4. gr., nema um það sé sérstaklega samið sbr. 25. gr.

7. gr.

Þóknun að viðbættu tímagjaldi lögmanns er að lágmarki kr. 8.200,- fyrir ritun greiðsluáskorunar, beiðni um aðför, nauðungarsölu og vörslusviptingar, kröfulýsingar, kröfu um gjaldþrotaskipti og afturköllun.

8. gr.

Fyrir athugun á fjárhagsstöðu einstaklinga og fyrirtækja með leit hjá Ökutækjaskrá, Fasteignaskrá og/eða vanskilaskrá Lánstrausts reiknast þóknun samkvæmt tímagjaldi, þó að lágmarki kr. 1.500,-

V. Mótakostnaður
9. gr.

Þóknun fyrir mót samkvæmt neðangreindu, reiknast af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta.

i) Fyrir fyrsta mót við aðför, við nauðungarsölumeðferð, kyrrsetningu, lögbanns- og löggeymslugerðir, svo og útburðar- og innsetningargerðir skal auk gjaldtöku samkvæmt 6. gr. miða við kröfufjárhæð sem hér segir: kr. 6.000,- af fyrstu kr. 50.000,-, kr. 6.000,- af næstu kr. 50.000,-, 0,5% af næstu kr. 500.000,- og 0,25% af því sem umfram er.

ii) Fyrir seinna mót skal greiða kr. 6.000,-.

iii) Fyrir mót við fyrirtöku máls í Hæstarétti, í héraðsdómi eða fyrir stjórnvaldi, ef þóknun er ekki reiknuð skv. 5. gr. eða 1. töluliði hér að framan skal þóknun vera kr. 6.000,-.

iv) Fyrir mót í málum, þar sem örðugt er að meta hagsmuni til fjár, skal við ákvörðun þóknunar taka tillit til mikilvægis málsins, umfangs þess, sem og þess tíma sem meðferð málsins tekur.

Þóknun samkvæmt þessari grein getur ekki orðið lægri en sem nemur tímagjaldi samkvæmt tímaskráningu, sbr. 3. og 4. gr., nema um það sé sérstaklega samið sbr. 25. gr.

VI. Aksturs- og ferðakostnaður
10. gr.

Hafi ferðalag í för með sér dvöl á stað fyrir utan stórhöfuðborgarsvæðið skal gjaldfæra miðað við þann tíma sem ferðalagið tekur. Jafnframt skal greiddur allur ferða- og dvalarkostnaður skv. reikningi. Aksturs- og dagpeningar skulu reiknaðir skv. almennum reglum nema kostnaður sé verulega hærri.

VII. Tjónabætur
11. gr.

Fyrir uppgjör og samninga um tjónabætur skal þóknun vera annað hvort skv. 3. gr og 4. gr. eða sem hér segir að viðbættu 40% álagi ef gagnaöflun er samfara.

i. Grunngjald þóknunar er kr. 6.500,- en við bætast 25% af fyrstu kr. 90.000,- og 10% af næstu kr. 650.000,-, 5% af næstu kr. 6.500.000,-, 3% af næstu kr. 9.500.000,- og 2% af því, sem fram yfir er. Heimilt er að semja um hærra álag eða ákveðnar prósentur af heildar bótafé við tjónþola og á það einkum við ef réttur til bóta er umdeildur.

VIII. Kaup og sala fasteigna og lausafjár eða leiga
12. gr.

Þóknun fyrir kaup eða sölu fasteigna og lausafjár skal almennt ákvörðuð með tilliti til þeirra hagsmuna sem um er fjallað samkvæmt neðangreindu. Ákvæði þessi gilda einnig um kaup og sölu atvinnufyrirtækja.

i) Sala fasteigna og skráðra skipa að lágmarki 2,5% af söluverði en semja skal um hærri prósentu ef mikil skuldaúrvinnsla er samhliða sölunni.

ii) Kaup fasteigna og skráðra skipa 1% af söluverði.

iii) Fyrir að annast skjalagerð og frágang við sölu á fasteign eða skráðu skipi 1% af söluverði að lágmarki þó kr. 95.000,-.

iv) Fyrir að athuga samninga og skjöl við sölu eða kaup fasteigna, skipa, lausafjár eða annarra eigna, sem annar aðili hefur gert, greiðist þóknun samkvæmt tímagjaldi eða 0,5% af samningsfjárhæð, allt samkvæmt nánara samkomulagi.

v) Kaup og sala lausafjár 3-5% af söluverði að lágmarki kr. 95.000,-.

vi) Sala atvinnurekstrar 3-5% af söluverði.

vii) Kaup á atvinnurekstri 2-3% af kaupverði

Þóknun samkvæmt þessari grein getur ekki orðið lægri en sem nemur tímagjaldi samkvæmt tímaskráningu, sbr. 3. og 4. gr., nema um það sé sérstaklega samið sbr. 25. gr.

13. gr.

Þóknun fyrir gerð kaupsaminga eða afsalsbréfa skal vera kr. 95.000,- og 0,75% af kaupverði eftir umfangi verks.

14. gr.

Þóknun fyrir gerð leigusaminga skal vera kr. 60.000,- eftir umfangi verks auk allt að 5% af árs leigufjárhæð og skal höfð hliðsjón af því hvort Lögmenn Kópavogi komu á leigusamningi og þá skal þóknun samsvara að lágmarki eins mánaðar leigu.

IX. Búskipti, greiðslustöðvun og nauðasamningur
15. gr.

Þóknun fyrir skiptastjórn, aðstoð við greiðslustöðvun eða umsjón með nauðarsamningum reiknast samkvæmt 3. gr og 4. gr. Fyrir málflutning eða innheimtur sem tengjast skiptstjórn greiðist samkvæmt greinum 5 og 6. Fyrir sölu eigna reiknast þóknun að jafnaði samkvæmt 12. gr.

16. gr.

Þóknun fyrir einkaskipti dánarbúa, skiptastjórn samkvæmt erfðaskrá, gæslu hagsmuna við búskipti í dánarbúum og við opinber skipti, félagsslit og fjárslit milli hjóna og sambúðarfólks er reiknuð skv. almennu tímagjaldi eða af heildarfjárhæð nettó arfs- eða búshluta þess eða þeirra sem unnið er fyrir og með eftirgreindum hætti: Grunngjald er kr. 75.000,-. Að auki 12,5% af fyrstu kr. 750.000,-, 7,5% af næstu kr. 2.000.000,- 6% af næstu kr. 10.000.000,- og 4% af því, sem umfram er.

X. Ýmis skjalagerð
17. gr.

Fyrir gerð erfðaskráa, skiptasamninga hjóna eða sambúðarfólks, gerð kaupmála eða sambúðarsamninga skal þóknun vera að lágmarki kr. 50.000,- auk tímagjalds samkvæmt 3. gr. og 4. gr. fyrir þann tíma sem fer í viðtöl og gagnaöflun. Sé um verulega hagsmuni að ræða skal gera sérstakt samkomulag um hagsmunatengda þóknun.

18. gr.

Þóknun fyrir gerð skuldabréfa, tryggingarbréfa, veðleyfa, veðflutnings, aflýsingar eða skjals um skilmálabreytingar á skuldabréfi reiknast samkvæmt tímagjaldi sbr. 3. gr. og 4. gr. þó að lágmarki kr. 25.000,-. Heimilt er einnig að reikna þóknun miðað við hagsmuni sem í húfi eru allt að 0,5% af fjárhæð.

19. gr.

Þóknun við skjalagerð við stofnun félags er kr. 80.000,- eftir umfangi verks auk tímagjalds samkvæmt greinum 3 og 4 fyrir þann tíma sem fer í viðtöl og gagnaöflun.

20. gr.

Fyrir sölu skuldabréfa og hlutabréfa skal þóknun vera 2% af söluverði nema sala hlutabréfa sé í reynd sala á fasteign og/eða fyrirtæki þá skal fara að skv. 8. gr.

21. gr.

Þóknun vegna eignaumsýslu og samninga um skuldaskil skal vera 8-10% af innborgaðri fjárhæð eða upphaflegri fjárhæð skulda auk tímagjalds samkvæmt greinum 3 og 4.

22. gr.

Við skjalagerð á erlendu tungumáli leggst 25% álag.

XI. Gildistaka, virðisaukaskattur, gjalddagi, afsláttur o.fl.
23. gr.

Við allar fjárhæðir í gjaldskrá þessarri bætist við virðisaukaskattur í ríkissjóð.

24. gr.

Verkkaupi skal greiða allan útlagðan kostnað.

25. gr.

Heimilt er að gefa afslátt af gjaldskrá þessari en skal það aðeins gert með samningi milli aðila og aðeins þegar um er að ræða föst viðskiptasambönd og ræðst hlutfall afsláttar af umfangi fastra viðskipta aðila.

26. gr.

Gjalddagi reikninga er við útgáfu og reiknast dráttarvextir frá eindaga sé ekki greitt á gjalddaga. Eindagi reikninga er 10 dögum eftir gjalddaga nema um annað sé samið.

27. gr.

Gjaldskrá þessi tekur gildi þann 1. janúar 2021.